Samanburður á hagkvæmni virkjanakosta
Virkjunarkostir landsmanna eru fjölmargir með mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, orkuvinnslugetu, nýtingu og fleira. Vatnsaflsvirkjanir hafa almennt verið ódýrari í stofnkostnaði á hvert uppsett megavatt (MW) en á móti hafa jarðhitavirkjanir skilað hærri nýtingu. Flókið getur verið að leggja mat á hagkvæmni þegar um ólíka kosti er að ræða.
Samorka leggur hér fram aðferðarfræði og útreikning á mismunandi hagkvæmni virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga rammaáætlunar. Aðferðarfræðin kallast LCOE, eða Levelized Cost of Energy. Hún er vel þekkt á alþjóðavettvangi í skýrslum um orkumál þó að ekki hafi hún verið notuð hingað til hér á landi. Með LCOE er hægt að nota „sömu mælistiku“ í samanburði ólíkra virkjunarkosta. Skýrsluna vann Kristján B. Ólafsson, rekstrarhagfræðingur.
Í fyrirliggjandi skýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar, sem nú er í umsagnarferli, var einungis tekið tillit til niðurstaðna frá faghópum 1 og 2, sem fjalla um náttúru- og menningarminjar og auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Ekki er stuðst við niðurstöður frá faghópum 3 og 4, sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagsleg áhrif af virkjanakostum. Að mati Samorku vantar mikið upp á ef ekki er tekið tillit til þeirra þátta. Þeir ættu að vera mikilvægur hluti af heildarmyndinni líkt og sjónarmið náttúruverndar og annarrar nýtingar á borð við ferðaþjónustu.
Skýrslan sýnir að allt að alls getur munað tugum, jafnvel yfir hundrað milljörðum króna, á samanlögðum stofnkostnaði við virkjanakosti í núgildandi nýtingarflokki annars vegar og ef valdir væru hagkvæmustu kostirnir hins vegar. Hún sýnir einnig að árlegur kostnaður við orkuframleiðslu er mörgum milljörðum króna meiri við kosti í núverandi orkunýtingarflokki en við hagkvæmustu uppröðun. Að sjálfsögðu koma fleiri sjónarmið en hagkvæmni virkjanakosta við sögu við röðun virkjunarkosta. Samorka ítrekar hins vegar áherslu á mikilvægi þess að jafnframt verði horft til hagkvæmni, sem og efnahags- og samfélagslegra áhrifa við röðun virkjunarkosta.
Samorka vonast til að skýrslan varpi ljósi á hvernig meta má hagkvæmni mismunandi virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í þriðja áfanga rammaáætlunar. Aðferðafræði LCOE getur komið að góðu gagni við frekari úrvinnslu, stefnumörkun og röðun virkjunarkosta.
Uppfærsla 11. júlí: Því miður skiluðu töflur á síðu 12 og 13 sér ekki rétt inn í skýrsluna. Uppfærða útgáfu af henni má finna hér: LCOE skýrsla (PDF 2 MB)